Innlent

Að­stoðar­lög­reglu­stjóri biðst lausnar

Árni Sæberg skrifar
Hulda Elsa Björgvinsdóttir er ekki lengur aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir er ekki lengur aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og sviðsstjóri ákærusviðs, er hætt störfum. Hún hefur verið í leyfi síðan í desember síðastliðnum eftir að sálfræðistofa gerði úttekt á starfinu á ákærusviðinu og skilaði í framhaldinu svartri skýrslu.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins um málið. Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu staðfestir fregnirnar í samtali við fréttastofu RÚV.

Fjallað var um það á Vísi í desember að mikið gustaði um Huldu Elsu vegna starfa hennar hjá embættinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu höfðu ýmsir starfsmenn á ákærusviði leitað í önnur störf undanfarin ár, meðal annars vegna erfiðra samskipta við Huldu Elsu. Einn fyrrverandi starfsmaður sagði til að mynda ekki óþekkt að hún tæki „hárblásarann“ á undirmenn sína ef svo bæri undir. Fyrir vikið hafi starfsmannavelta á ákærusviðinu verið töluverð.

Hefur lengi verið lykilmaður hjá lögreglunni

Hulda Elsa hefur verið lykilmaður innan lögreglunnar. Hún starfaði hjá ríkissaksóknara um ellefu ára skeið og var sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá því 2016.

Þá var hún staðgengill lögreglustjóra frá árinu 2017 og hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri.

Ekki hefur náðst í Huldu Elsu við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×