Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttu gegn krabbameini hjá körlum. Slagorðið í ár vísar til þess að karlmenn séu ekki nægilega duglegir að leita til læknis, þrátt fyrir að krabbameinseinkenni geri vart við sig.
Samkvæmt rannsókn Krabbameinsfélagsins höfðu um helmingur íslenskra karla sem greindust með krabbamein fundið fyrir einkennum í þrjá mánuði eða lengur, áður en þeir leituðu til læknis. Fjórtán prósent þeirra biðu í meira en ár.
Í byrjun mars var frumsýnd auglýsing þar sem margir af frægustu leikurum, tónlistarmönnum og grínistum landsins komu fram. Í auglýsingunni fer fram Frestunarkeppni Íslands. Hver og einn er með borða um sig sem sýna hversu miklir frestarar þeir eru, til dæmis eru það Besti biðarinn, Hummari ársins, Hikari ársins og Dokari ársins. Að lokum er það Herra „kannski seinna“ sem sigrar keppnina áður en bent er á að þetta sé ekki keppni sem einhver vill vinna.
Dagatalið góð áminning allt árið um kring
Auglýsingin hefur vakið mikla athygli nú í mars en nú hefur verið gefið út sérstakt dagatal sem getur hangið uppi allt árið um kring og minnt okkur á þennan mikilvæga málstað. Dagatalið kostar 2.700 krónur og er til sölu hér.
Það eru tólf af karlmönnunum úr auglýsingunni sem prýða dagatalið en það eru þeir Ari Eldjárn, Siggi Gunnars, Pálmi Gestsson, Valur Freyr Einarsson, Þorsteinn Bachmann, Jógvan, Hannes Þór Halldórsson, Björn Stefánsson, Ævar Þór Benediktsson, Halldór Gylfason, Gísli Örn Garðarsson og Björgvin Franz Gíslason.
Karlmennirnir tólf prýða hver sinn mánuð á dagatalinu. Þar kemur einnig fram titill þeirra í Frestunarkeppninni, saga þeirra og þau einkenni sem karlmönnum ber að þekkja.

Fyrsti maðurinn sem þeir hittu hafði sjálfur greinst með krabbamein
Krabbameinsfélagið tók upp skemmtilegt myndband þar sem aðstandendur Krabbameinsfélagsins heimsóttu dekkjaverkstæði og skiptu dagatali með fáklæddri konu út fyrir Mottumars dagatalið.
„Þetta eru ekki alveg eins og dagatölin sem maður þekkti hérna áður fyrr sem voru svona fegurðarsamkeppnisdagatöl. Þetta er svona okkar útgáfa af sætustu stelpunum á ballinu,“ segir í myndbandinu.
Þeir fóru á Gúmmívinnustofuna Skipholti þar sem vildi svo til að fyrsti starfsmaðurinn sem þeir hittu hafði sjálfur greinst með krabbamein. Hann þekkir það af eigin raun hvað það skiptir miklu máli að þekkja einkenni krabbameins og bregðast strax við.