Borgin leitaði til Hæstaréttar í febrúar síðastliðinn eftir að Landsréttur dæmdi borgina til að greiða konunni skaðabætur. Landsréttur hafði áður sýknað borgina en einn dómara við Landsrétt var síðar talinn vanhæfur vegna þess að hann var borgarlögmaður þegar slysið var tilkynnt til embættisins. Málið rataði á sínum tíma til Hæstaréttar, aftur til Landsréttar og verður nú tekið fyrir í Hæstarétti.
Slysið varð í skemmtidagskrá á vegum starfsmannafélags leikskólans í september 2016 þegar starfsmenn spiluðu svokallaðan blöðrubolta. Samstarfsmaður konunnar hljóp á hana þannig að hún datt illa, sleit krossband og hluta af innra hliðarbandi á vinstra hné. Kennarinn var óvinnufær í tvo mánuði eftir slysið og varanleg örorka hennar metin fimmtán prósent.
Í ákvörðun Hæstiréttar segir að Reykjavíkurborg byggi beiðni sína á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Vísar borgin sérstaklega til þess að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvenær starfsmaður teljist vera „í starfi sínu“ í skilningi reglna um slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgin vildi sömuleiðis meina að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til og að túlkun réttarins á gildissviði umræddra reglna fari gegn því sem teljist sanngjarnt og eðlilegt.
„Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því samþykkt,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.