Körfubolti

Denver Nuggets vann Milwaukee Bucks í toppslag NBA-deildarinnar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nikola Jokic og Giannis Antetokounmpo berjast um boltann í nótt.
Nikola Jokic og Giannis Antetokounmpo berjast um boltann í nótt. Vísir/Getty

Nikola Jokic skoraði 31 stig fyrir Denver sem vann Milwaukee Bucks í toppslag í NBA-deildinni í nótt. Phoenix Suns batt enda á þriggja leikja taphrinu.

Denver Nuggets og Milwaukee Bucks mættust í toppslag NBA-deildarinnar í nótt en liðin eru í efstu sætum Austur- og Vesturdeildarinnar. Í liðunum eru tvær af skærustu stjörnum deildarinnar, Nikola Jokic og Giannis Antetokounmpo og þeir fóru fyrir sínum liðum í leiknum.

Jokic og Antetokounmpo skoruðu báðir 31 stig í nokkuð örggum sigri Nuggets á heimavelli sínum, lokatölur 129-106. Denver leiddi með ellefu stigum í hálfleik en í þriðja leikhluta misstu leikmenn Bucks kúlið. Bobby Porter jr. fékk dæmda á sig villu fyrir brot á Jokic og tæknivillu strax í kjölfarið. Skömmu síðar fékk Brook Lopes tæknivillu á bekknum og Giannis síðan þriðju tæknivillu Bucks í leikhlutanum stuttu seinna.

Nuggets vann leikhlutann 34-19 og var með leikinn í hendi sér eftir það. Jeff Green, leikmaður Nuggets, átti svakalega troðslu í leiknum þar sem hann tróð yfir Giannis Antetokounmpo, eitthvað sem er ekki allra færi.

Giannis og Jokic skoruðu eins og áður segir 31 stig hvor í leiknum og Jamal Murray bætti 26 stigum við fyrir Nuggets.

Phoenix batt enda á þriggja leikja taphrinu með 125-105 heimasigri á Philadelphia 76´ers. Devin Booker fór fyrir liði Suns og skoraði 29 stig en Tyrese Maxey átti stórleik fyrir lið 76´ers og skoraði 37 stig. Joel Embiid var með 28 stig og 10 fráköst fyrir gestina.

Önnur úrslit í nótt:

Atlanta Hawks - Indiana Pacers 143-130

Miami Heat - Brooklyn Nets 100-129

Sacramento Kings - Utah Jazz 121-113

Los Angeles Clippers - New Orleans Pelicans 110-131

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×