Handbolti

Sex íslensk mörk í tapi Volda

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rakel Sara skoraði fjögur mörk í dag.
Rakel Sara skoraði fjögur mörk í dag. Vísir/Hulda Margrét

Volda beið lægri hlut gegn Bysåsen í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst í liði Volda í leiknum.

Alls fjórir Íslendingar eru á mála hjá Volda í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari liðsins, en hann mun færa sig um set í sumar og taka við KA í Olís-deild karla.

Auk Halldórs Stefáns leika þær Rakel Sara Elvarsdóttir, Dana Björg Guðmundsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir með liðinu.

Róðurinn hefur verið þungur hjá Volda í vetur sem er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Liðið hefur aðeins náð í tvo sigra í hinni sterku norsku deild og var í neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn en Bysåsen var í 8.sæti með nítján stig eftir tuttugu umferðir.

Leikurinn í dag var jafn til að byrja með en Bysåsen náði sex marka forskoti upp úr miðjum fyrri hálfleik. Volda kom þó til baka og náði góðum kafla undir lok hálfleiksins en staðan í hálfleik var 12-10 fyrir gestina í Bysåsen.

Volda náði að minnka muninn í 12-11 í upphafi síðari hálfleiksins en komst aldrei nær en það. Munurinn hélst í þrem til fjórum mörkum allan leikinn og fór svo að lokum að Bysåsen fagnaði 23-20 sigri.

Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst hjá Volda í dag með fjögur mörk en Dana Björg og Katrín Tinna skoruðu eitt mark hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×