Innlent

Fleiri samningar í höfn hjá RSÍ og VM

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá undirritun samninga í dag.
Frá undirritun samninga í dag. aðsend

Rafiðnaðarsamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna skrifuðu undir kjarasamning við Landsvirkjun nú síðdegis. Félögin skrifuðu einnig undir samning við Norðurorku í dag en í gær náðust samningar við HS Orku og HS Veitur og á mánudag sömdu þau við Orkuveitu Reykjavíkur. Rafiðnaðarsambandið skrifaði þá undir samning við Rarik í dag.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og forseti ASÍ, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Áður hafði verið kvartað yfir seinagangi en viðræður komust almennilega á skrið eftir helgina. Eftir standa fimm samningar, það er við ríki, sameinað samband sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Landsnet og Orkubú Vestfjarða og eru vonir bundnar við að þeim viðræðum ljúki fljótlega. Í kjölfarið hefjast viðræður um langtímasamninga.

Fara samningarnir núna til kynningar og kosningar hjá félagsfólki félaganna. 

„Það er mikið ánægjuefni að tekist hafi að semja við fyrirtækin enda nauðsynlegt að félagsfólk okkar í orkugeiranum fái kjarabætur líkt og félagsfólk okkar á almennum vinnumarkaði hefur fengið,“ segir í tilkynningu.

Starfsfólk fagfélaganna þakkar samninganefndum fyrir vel unnin störf í nýafstaðinni samningalotu og segjast hlakka til að vinna að nýjum kjarasamningum strax á næsta ári með félagsfólki sínu.


Tengdar fréttir

Tveir samningar undir­ritaðir en enn eru nokkrir eftir

Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir það ánægjulegt að kjarasamningsviðræður virðast komnar á skrið. Fyrir helgi var talið að viðræður við Orkuveituna hefðu siglt í strand en samningur við þau var undirritaður í gær. Í dag voru samningar við HS Orku og HS Veitur undirritaðir en nokkrir samningar standa eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×