Íslenska handboltalandsliðið kom til Tékklands í gærkvöldi þar sem liðið mætir heimamönnum í undankeppni EM á morgun.
Þetta verður fyrsti leikur liðsins eftir heimsmeistaramótið og fyrsti leikur liðsins eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti óvænt að þjálfa liðið þrátt fyrir að vera með samning til ársins 2024.
„Andinn í hópnum er bara fínn en þetta eru búnar að vera pínu skrýtnar tvær vikur núna undanfarið. Vonbrigði á síðasta móti en við leikmennirnir erum staðráðnir að gera vel,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við RÚV.
Aron var þarna að vísa í brotthvarf þjálfarans. Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson stýra liðinu í leikjunum tveimur á móti Tékkum.
„Tímasetningin. Það var stutt í næsta verkefni og allt það. Við leikmennirnir fengum bara tilkynningu um þetta rétt áður en þetta kom út. Auðvitað kemur þetta flatt upp á mann. Þjálfarinn átti rúmt ár eftir af samningi og við vorum ekki alveg að búast við þessu,“ sagði Aron.
Það má sjá allt viðtalið við Aron hér.