Samningar Eflingar eins og annarra á almennum vinnumarkaði voru lausir hinn 1. nóvember. Eftir að öll aðildarfélög Starfsgreinasambandsins önnur en Efling ásamt VR og iðnaðar- og tæknifólki náði samningum við Samtök atvinnulífsins í byrjun desember, hefur deila Eflingar og SA farið stöðugt harðnandi.
Segja má að deilan hafi síðan færst upp á nýtt stig eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sína hinn 26. janúar. Efling neitaði að veita aðgang að félagatali sínu til að hægt yrði að greiða atkvæði um tillöguna og upphófst mikil rekistefna.
Í framhaldinu tóku við mikil átök með fyrstu röð verkfalla Eflingar sem hófust hinn 7. febrúar, dómsmálum fyrir Félagsdómi, héraðsdómi og Landsrétti og nýr sáttasemjari var skipaður í deilunni. Þá héngu yfir hótanir um frekari verkföll og verkbann á alla félagsmenn Eflingar að hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Þegar forystufólk Eflingar og SA mættust í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2-Vísi á föstudag lá fyrir að nánast útilokað var að ná kjarasamningi áður en verkbann skylli á. Aðeins væru tveir möguleikar í stöðunni, ný miðlunartillaga eða lagasetning að hálfu Alþingis.
Samstaða um atkvæðagreiðslu algert lykilatriði
Ástráði Haraldssyni settum ríkissáttasemjara tókst loks seint í gærkvöldi eða nótt að leiða deiluaðila til sameiginlegrar niðurstöðu.

„Ég hef ákveðið að leggja fram nýja miðlunartillögu í deilu SA og Eflingar,“ sagði Ástráður í upphafi yfirlýsingar sinnar á fréttamannafundinum. Setning sem beðið hafði verið eftir lengi.
Hann sagði tillöguna nánast samhljóða fyrri miðlunartillögu og kæmi í stað hennar. Hún fæli í sér sams konar launahækkanir og samið hefði verið um við Starfsgreinasambandið. Á því væru þó undantekningar. Verkföllum og verkbanni væri frestað þar til atkvæðagreiðslu sem hefst á föstudag lyki á miðvikudags morgun.
Ástráður segist aldrei hefði getað lagt tillöguna fram án þeirrar vissu að greidd yrðu um hana atkvæði hjá báðum deiluaðilum.
„Þetta embætti hefur búið við það upp á síðkastið að þær valdheimildir, þær takmörkuðu valdheimildir, sem það taldi sig hafa, þær hafa ekki reynst það haldreypi sem ég að minnsta tel nauðsynlegt að embættið hafi. Þess vegna var auðvitað tilgangslaust miðað við stöðu mála að ég færi að setja fram einhverja tillögu nema ég hefði einhverja vissu fyrir því að hún yrði raunverulega borin undir atkvæði,“ sagði Ástráður Haraldsson.
Sólveig Anna segir þernur og bílstjóra fá töluverðar bætur
Formaður Eflingar segir miðlunartillöguna fela í sér umtalsverðar kjarabætur fyrir starfsfólk hótela og bílstjóra olíufélaganna og Samskipa. Tillagan væri ásættanleg í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hafi aldrei ætlað sér að semja við félagið. Framkvæmdastjóri SA er ekki sáttur við að félag sem fer í verkfall fái afturvirkar launahækkanir eins og tillagan gerir ráð fyrir.
Embætti ríkissáttasemjara hefur sett upplýsingar um miðlunartillöguna á heimasíðu sína en á þeirri síðu hefst atkvæðagreiðsla um tillöguna á hádegi á föstudag og lýkur klukkan tíu á miðvikudagsmorgun.

Kauptaxtar aðalkjarasamnings hækka á bilinu 35 til rétt rúmar 52 þúsund á mánuði eða að meðaltali um um 42.000 krónur. Hlutfallsleg hækkun kauptaxta verður á bilinu 9.5% til 13% og meðalhækkun rúmlega 11%. Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um kr. 33.000 frá 1. nóvember 2022.
Sólveig Anna Jónsdóttir segir þetta löglega framkomna miðlunartillögu sem sáttasemjari hafi ráðgast við samninganefnd Eflinar um.
Muntu þú mæla með því við þína félagsmenn og konur að þau greiði atkvæði með þessari tillögu?

„Ég mun auðvitað gera það sem mér sem formanni félagsins og formanni samninganefndar ber að gera. Sem er að skýra frá því sem gerst hefur. Sem er að skýra með greinargóðum hætti frá innihaldi miðlunartillögunnar og öðru því sem fram kom í gær. Svo er það auðvitað félagsfólks sjálfs að taka ákvörðun,“ segir formaður Eflingar.
Skoða verði niðurstöðuna í ljósi aðdragandans
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri samtaka atvinnulífsins segir að skoða verði þessa niðurstöðu í samhengi aðdragandans og að deilan hafi verið komin í algeran hnút. Deiluaðilar hefðu báðir gert sér grein fyrir ábyrgð sinni með yfirstandandi verkföllum og yfirvofandi verkbanni. Deilan hefði ekki getað komist í meiri hnút.

„Að því leytinu til held ég að við getum ekki annað en verið ágætlega ánægð með þessa framlagningu. Jafnvel þótt við höfum gert athugasemd og barist gegn því að full afturvirkni yrði tryggð í þessari miðlunartillögu. Enda teljum við að það eigi ekki að verðlauna stéttarfélög sem framkvæma verkföll á umbjóðendur samtaka atvinnulífsins. Og við það er ég ósáttur,“segir Halldór Benjamín.
Formaður Eflingar segir félagið sjálft standa uppi sem sigurvegari. Það væri sterkara eftir þá miklu samstöðu sem félagsmenn hefðu sýnt. Þá hafi ýmislegt annað áunnist.
„Hótelstarfsfólkið, þernurnar, færast upp um einn launaflokk. Það er auðvitað líka ánægjulegt að sjá að þær manneskjur sem eru tilbúnar til að leggja niður störf fá þá betri útkomu. Svo er það auðvitað svo að náðst hefur samkomulag við Skeljung, Olíudreifingu og Samskip þar sem komið er til móts við okkar kröfur þar,“segir Sólveig Anna.
Þessi atriði hafi gert miðlunartillögu mögulega. Þá hafi að lokum verið ráðgast viðsamninganefnd Eflingar áður en tillagan var lögð fram.

„En svo er það auðvitað svo að það var ekki fyrr en nýr sáttasemjari kom í málið að einhver tilraun var gerð til að knýja á um að samtal ætti sér stað á milli deiluaðila. Það hafði aldrei verið gert áður,“segir formaður Eflingar.
Framkvæmdastjóri SA segir rétt að halda til haga að launataflan í þessari tillögu væri sú sama og í SGS samningnum. Þetta væru í öllum meginatriðum sömu kjarasamningarnir.
„Ég held að það sé alveg óhætt að segja að það hafi margir þurft að gefa einhvern afslátt af sinni nálgun á lífið og tilveruna í þessu. Þannig er raunveruleikinn oft. Hann er hvorki svartur né hvítur. Galdrarnir gerast oft á gráa svæðinu,“segir Halldór Benjamín Þorbergsson.