Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson væri síðustu níu daga búið að þræða miðin út af Vestfjörðum og inn á Húnaflóa.

„Þetta var umtalsvert magn sem var að sjást þarna inni í Húnaflóa,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, en loðnan þar er að nálgast hrygningu.
Þar til nánari útreikningar liggja fyrir um magnið ráðlagði stofnunin strax í dag minnst eitthundrað þúsund tonna kvótaaukningu og það er sagt varlega áætlað.

Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað segist forstjórinn Gunnþór Ingvason hafa fulla trú á því að flotanum takist að veiða viðbótarkvótann. Verðmæti hundrað þúsund tonna aukningar áætlar hann milli átta og tíu milljarða króna. Gunnþór kveðst raunar trúa því að viðbótin verði enn meiri, jafnvel 150 þúsund tonn.
Loðnuflotinn hefur undanfarna daga verið að fylgja loðnugöngu vestur með suðurströndinni að hefðbundnum hrygningarstöðvum. Hafrannsóknastofnun mælist til þess að útgerðir gangi ekki of nærri þeirri göngu heldur snúið sér meira að loðnunni fyrir norðan en hún er einnig að nálgast hrygningu.

„Vð höfum séð hrygningu fyrir norðan. Það er ekki langt síðan það var töluverð hrygning fyrir norðan.
En þetta er auðsjáanlega breytilegt milli ára. Og þetta hefur sérstaklega verið að gerast með hlýnandi loftslagi og hlýrri sjó,“ segir Guðmundur, sem vonast til að fyrir helgi geti endanleg ráðgjöf um loðnukvóta vertíðarinnar legið fyrir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: