Afkoma Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri í 58 ára sögu þess fyrirtækisins, samkvæmt ársreikningi sem birtur var í gær. Forstjórinn, Hörður Arnarson, kynnti fréttamönnum og fulltrúum fulltrúum greiningadeilda fjármálastofnana afkomuna í morgun, en rætt var við Hörð í hádegisfréttum Bylgjunnar:
„Við erum á margan hátt að uppskera, bæði frá þessum virkjunum sem hafa verið byggðar á síðustu 58 árum, og njótum mjög góðs af í dag, en einnig þessari vegferð sem við hófum fyrir tíu árum síðan að endursemja við okkar viðskiptavini. Það er að skila sér í langbesta rekstrarári Landsvirkjunar,“ segir Hörður.
Í kynningu Landsvirkjunar kemur fram að stóriðjan borgar núna raforkuverð sem er sambærilegt við það sem er í helstu viðmiðunarlöndum, eins og Kanada og Norður-Noregi. Meðalverð til stórnotenda án flutnings hafi aldrei verið hærra, eða tæplega 43 dollarar á megavattstund.
Meirihluti tekna Landsvirkjunar frá stóriðjunni er tengdur álverði og raforkumarkaði Norðurlanda og þar hefur verð verið í hæstu hæðum.
„Ytri aðstæður á síðasta ári voru hagstæðar. Bæði gekk okkar viðskiptavinum vel og voru að fullnýta samningana. Virkjanirnar gengu líka vel og verð á hrávörumörkuðum há.
En svona meginástæðan fyrir þessum mikla viðsnúningi eru endursamningar. Við höfum samið við flestalla okkar viðskiptavini upp á nýtt. Þeir samningar er núna orðnir virkir. Og það er kannski stærsti áhrifaþátturinn í þessari góðu afkomu sem við sjáum, bæði 2021 og 2022,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.