Hinn 19 ára gamli Hákon Arnar var í byrjunarliði FCK þegar liðið hóf leik að nýju í dönsku úrvalsdeildinni. Meistararnir mættu Silkeborg og unnu sannfærandi 3-0 útisigur. Þá Hákon Arnar hafi ekki komist á blað þá efast engi um gæði hans.
Hlaðvarp á vegum danska fjölmiðilsins B.T. velti nýverið fyrir sér hverjir væru verðmætustu leikmenn dönsku úrvalsdeildarinnar eins og staðan er í dag. Skagamaðurinn ungi var þar í öðru sæti.
Ernest Nuamah, 19 ára gamall vængmaður toppliðs Nordsjælland, var á toppi listans en hann er metinn á 151 milljón danskra króna eða 3,15 milljarða íslenskra króna. Þar á eftir kom Hákon Arnar en hann er metinn á 135 milljónir danskra króna eða 2,8 milljarða íslenskra króna.
Aðrir á listanum eru Gustav Isaksen [Midtjylland], Adama Nagalo [Nordsjælland] og Kamil Grabara [FCK].
Red Bull Salzburg frá Austurríki vildi fá Hákon Arnar í janúar en FCK neitaði tilboði félagsins upp á tvo milljarða íslenskra króna. Ef marka má mat B.T. þarf Salzburg að punga út tæplega milljarði til viðbótar ef þeir vilja fá Skagamanninn unga í sínar raðir.
Salzburg virðist líka vel við ljóshærða framherja frá Norðurlöndunum en félagið festi kaup á Erling Braut Håland árið 2019. Sá gerði gott mót í Austurríki og hrellir í dag varnarmenn ensku úrvalsdeildarinnar.