Handbolti

Janus og Sigvaldi skoruðu fimmtán fyrir Kolstad

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason kom með beinum hætti að tólf mörkum Kolstad í dag.
Janus Daði Smárason kom með beinum hætti að tólf mörkum Kolstad í dag. Kolstad

Landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu samtals fimmtán mörk fyrir Kolstad er liðið vann öruggan sex marka útisigur gegn Kristiansand í norsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 27-33.

Gestirnir í Kolstad höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu og liðið leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, staðan 15-19.

Heimamenn náðu aldrei að ógna forskoti gestanna að einhverju viti í síðari hálfleik og Kolstad vann því að lokum öruggan sex marka sigur, 27-33.

Janus Daði skoraði átta mörk fyrir Kolstad í dag og Sigvaldi Björn skoraði sjö. Þá var Janus einnig með fjórar stoðsendingar og Sigvaldi eina, en Kolstad trónir á toppi norsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir 17 leiki.

Þá skoraði Orri Freyr Þorkelsson þrjú mörk fyrir Elverum er liðið vann sex marka sigur gegn Bækkelaget Håndball Elite, 37-31. Elverum situr í öðru sæti deildarinnar með 28 stig, sex stigum minna en Kolstad og hefur leikið einum leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×