Innlent

Vatna­vextir og leysingar setja sam­göngur sums staðar úr skorðum

Atli Ísleifsson skrifar
Straumfjarðará á Snæfellsnesi í leysingum.
Straumfjarðará á Snæfellsnesi í leysingum. Vísir/RAX

Vatnavextir og leysingar undanfarið hafa víða sett samgöngur úr skorðum hér á landi. Skeiða- og Hrunamannavegi hefur þannig verið lokað við Stóru-Láxá. Búast má við að vegurinn verði lokaður í að minnsta kosti sólarhring, þar til síðdegis á þriðjudag.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vegagerðarinnar en þar er jafnframt bent á hjáleiðir um Skálholtsveg, Biskupstungnabraut, og Bræðratungnaveg.

Á Þingvöllum flæðir yfir veg á Efrivallaveg og eru vegfarendur beðnir um að fara varlega.

Á Suðurlandi og á Vesturlandi er síðan varað við steinkasti og brotholum í malbiki vegna leysinganna og er fólk beðið um að sýna aðgát.

Þá eru vegirnir um Fellsströnd og Skarðsströnd ófærir vegna vatnaskemmda og sömu sögu er að segja af kaflanum milli Vörðufellsafleggjara og Keisbakkaafleggjara.

Á Vestfjörðum var um miðnætti lokið við að moka í gegnum snjóflóð sem féll í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi fyrr um kvöldið.

Neðarlega í Norðdalnum, sunnan Steíngrímsfjarðarheiðar, er síðan farið að grafast úr veginum. Hann er enn opinn en skemmdir eru í slitlagi og þarf að fara með gát.

Þá lokaðist Strandgatan á Tálknafirði við Þórsberg í gærkvöldi þar sem vatn flæddi yfir veg og á að taka stöðuna nú í morgunsárið.

Á Norðurlandi er vegurinn um Miðfjörð aðeins einbreiður vegna vatnaskemmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×