Handbolti

„Þetta er einn erfiðasti útivöllurinn“

Kári Mímisson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sáttur með dagsverkið.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sáttur með dagsverkið. Vísir/Diego

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var að vonum sáttur með sigur sinna manna gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í dag í Olís deildinni í handbolta.

„Þetta var bara frábær frammistaða, vörn og sókn. Báðir hálfleikirnir góðir, varnarleikurinn í fyrri var frábær og sóknarleikurinn agaður. Við vorum að enda þessar sóknir með skot á markið.“

Eitt af vandamálum Aftureldingar í vetur hefur verið að halda forskoti.

„Ég var líka ánægður með það að við vorum með forskot í hálfleik, fimm mörk og vinnum líka seinni hálfleikinn. Við náðum að spila leikinn með forskoti sem hefur oft verið okkar vandamál. Við höfum kannski ekki verið mjög góðir í að halda í þetta en núna héldum við aganum, héldum skipulagi og kláruðum þetta eins og fagmenn.“

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði að minnka forskot Aftureldingar niður í 2 mörk snemma í hálfleiknum en fór þá eitthvað um Gunnar?

„Nei, nei alls ekki. Grótta er auðvitað með mjög gott lið og það er erfitt að koma hingað. Þetta er einn erfiðasti útivöllurinn. Öllum finnst erfitt að spila við Gróttu hér. Við vissum alveg að þeir kæmu með áhlaup og að við þyrftum að standast það. Ég er mjög ánægður með að við stóðumst það áhlaup, héldum haus og já, vinnum seinni hálfleikinn líka.“

Þorsteinn Leó fékk enn eitt höfuðhöggið á þessari leiktíð og lék lítið eftir það.

„Hann var klár og vildi fara inn á. Ég vildi bara ekki taka sénsinn á honum. Ég held að þetta hafi verið meira hálsinn á honum en annars er hann bara góður. Ég vildi bara hlífa honum út af sögunni og ég vildi ekki taka sénsinn. Betra að vera bara öruggur með þetta.“

En eru þessi tíðu höfuðhögg sem Þorsteinn Leó er að fá eitthvað sem Afturelding og íslenskur handbolti þarf að hafa áhyggjur af?

„Nei, nei þetta er bara partur af þessu. Hann er bara góður og ég held að þetta sé bara hluti af sportinu og þetta gerist bara. Auðvitað þarf maður að passa þetta og þess vegna setti ég hann ekki inn á, út af sögunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×