Ferðaskrifstofan Air Viajes birti auglýsinguna á Instagram fyrir skömmu. Auglýsingin hefur nú verið fjarlægð en þar nefndi starfsfólk ferðaskrifstofunnar fjölmarga kosti þess að koma hingað til lands.
Af hverju er best að búa á Íslandi? Kostirnir eru margir; menntakerfinu og almannatryggingakerfinu er hrósað í hástert og þá kemur einnig fram að dagpeningar séu í boði í óákveðinn tíma.
Birgir Þórarinsson alþingismaður sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd segir málið alvarlegt.
„Ég hef haft efasemdir um það að sá mikli fjöldi flóttamanna sem hefur komið hingað frá Venesúela undanfarin misseri séu í raun flóttamenn í skilningi laganna; þeir séu hérna af efnahagslegum ástæðum í heimalandinu. Og það er ekki grundvöllur fyrir því að fá hér alþjóðlega vernd. “
„Ég byggi þetta meðal annars á samtölum mínum við nefndarmenn í flóttamannanefnd Evrópuráðsins þar sem ég sit fyrir Íslands hönd. Og þessi auglýsing frá ferðaskrifstofu í Venesúela þar sem boðið er upp á ferðir til Íslands: Það er sagt að hér sé gott velferðarkerfi og peningar í boði við komuna til landsins, staðfestir bara það sem ég hef sagt í þinginu.“

Birgir segir fjölda flóttamanna frá Venesúela hér á landi óeðlilegan. Í fyrra hafi komið um 1200 flóttamenn frá Venesúela hingað til lands, saman borið við 80 í Noregi. Hann hefur óskað eftir því að málið verði tekið upp í allsherjar- og menntamálanefnd.
„Og ef rétt reynist að í Venesúela er iðnaður í kringum það að senda fólk á velferðarkerfið á Íslandi, þá verður að taka það föstum tökum. Það er ótrúlega bíræfið að mínu mati að geta verið að auglýsa ferðir hingað til lands þar sem verið er að dásama hér velferðarkerfið og peningar í boði þegar þú kemur til landsins, eins og segir í auglýsingunni, það er bara augljóst að það er einhvers konar iðnaður í kringum þann fjölda sem er að koma hingað til landsins, því miður.“
Alvarlegt mál
Birgir segir óeðlilegt að þeir sem komi frá Venesúela fái fjögurra ára viðbótarvernd á meðan þeir sem koma frá Úkraínu, stríðshrjáðu landi, fái vernd í eitt ár.
Það þarf að fylgjast mjög grannt með þessu ef niðurstaðan er sú að það er verið að senda fólk gagngert til að komast á velferðarkerfið, fólk sem er ekki í raun og veru flóttamenn heldur er að sækjast eftir betra efnahagslegu ástandi.
Er þetta alvarlegt mál?
„Það myndi ég svo sannarlega segja. Ef rétt reynist þá er þetta misnotkun á velferðarkerfinu á Íslandi og á því verður að taka,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður að lokum.