Ráðgjöfin byggir á samanteknum niðurstöðum á mælingum á stærð veiðistofns í haustleiðangri (763 þús. tonn) og leiðangri sem fór fram dagana 23.-30. janúar (732 þús. tonn).
Útgefinn loðnukvóti fyrir komandi vertíð var 218 þúsund tonn en útgerðir loðnuskipa höfðu væntingar um að kvótinn yrði ekki minni en fyrir vertíðina í fyrra, eða um 400 þúsund tonn. Loðnuvertíðin hófst í desember eins og fjallað var um á Vísi.
Mælingarnar í janúar voru gerðar á skipum Hafrannsóknastofnunar, r/s Bjarna Sæmundssonar og r/s Árna Friðrikssonar ásamt loðnuskipunum Jónu Eðvalds SF, Heimaey VE og Ásgrími Halldórssyni SF.
Aðstæður til mælinga voru þokkalegar þessa daga að því er segir á vef Hafró og náðist yfir allt fyrirfram ákveðið rannsóknasvæði ef undan er skilið vestasti hlutinn. Þar hamlaði hafís yfirferðinni.
Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns.