Handbolti

Orri og félagar stálu sigri gegn Arendal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Orri Freyr og félagar eru sex stigum á eftir toppliði Kosltad.
Orri Freyr og félagar eru sex stigum á eftir toppliði Kosltad. https://www.ostlendingen.no/

Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í norska meistaraliðinu Elverum unnu dramatískan eins mark sigur gegn Arendal í norsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 31-32.

Fyrir leikinn var Elverum átta stigum á eftir toppliði Kolstad og því ljóst að liðið þurfti á sigri að halda til að halda veikri von um deildarmeistaratitilinn á lífi.

Liðið byrjaði vel og skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins, en eftir það fór að halla undan fæti og heimamenn í Arendal tóku öll völd á vellinum. Heimamenn náðu mest sjö marka forskoti í stöðunni 15-8, en staðan var 17-12 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Gestunum í Elverum gekk brösulega að brúa bilið í síðari hálfleik. Liðið náði að minnka muninn niður í tvö til þrjú mörk í nokkur skipti, en misstu heimamenn jafn harðan fram úr sér aftur. Liðið minnkaði muninn í tvígang niður í eitt mark undir lok leiksins og náðu að jafna á lokamínútunni.

Elverum fékk svo vítakast á seinustu sekúndum leiksins og liðið tryggði sér dramatískan eins marks sigur þegar leiktíminn var liðinn, 31-32.

Elverum situr nú í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eftir 15 leiki, sex stigum á eftir Íslendingaliði Kolstad sem trónir á toppnum með fullt hús stiga. Arendal situr hins vegar í sjöunda sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×