„Ég hugsaði með mér þegar þátturinn byrjaði, jæja nú dett ég út,“ sagði Guðjón Smári í Brennslunni á FM957 í dag. Úrslit þáttarins komu honum því ekki á óvart.
„Það var ekki mín hugmynd að vera ber að ofan,“ sagði hann um fatavalið á föstudaginn sem vakti mikla athygli.
„Ég var olíuborinn á bumbunni.“
Hann segir að atriðið hafi verið það flott að kvenþjóðin hafi farið á hliðina.
„Karlþjóðin líka.“

Vesen hjá þjóðinni
Eins og fjallað var um á Vísi tók Guðjón áhættu í millistiginu í dómaraprufunum og skipti um lag á síðustu stundu. Það virkaði og skilaði honum alla leið í átta manna úrslit þar sem hann hefur blómstrað.
„Þetta er náttúrulega bara rugl,“ sagði Guðjón Smári glottandi í Idol þættinum þegar hann kvaddi.
„Það er greinilega eitthvað vesen hjá íslensku þjóðinni,“ bætti hann svo við.
„Fáránlegt.“
Dómararnir þökkuðu honum fyrir að setja skemmtilegan svip á keppnina. „Þú ert stjarna og þú ert að fara að rísa hærra en þetta,“ sagði dómarinn Birgitta Haukdal þegar úrslitin lágu fyrir.
Á stóra Idol sviðinu hefur hann flutt lög eins og Slipping Through My Fingers, I Want to Know What Love Is og nú síðast You Know My Name úr myndinni Casino Royal. Brot af flutningi hans frá því á föstudag má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Vaknar í sprelli
Guðjón Smári er einstaklega hvatvís og hress týpa eins og áhorfendur fengu að fylgjast með í Idol.
„Það sem ég er búinn að vera að berjast við þegar hún elsku fallega Bríet mín biður um einlægni, er að ég vakna bara í sprelli.“ Hann er þó mjög væminn í lagavali.
„Ég hlusta bara á lög sem hægt er að grenja við, væmnustu tónlistina,“ viðurkenndi Guðjón Smári í yfirheirslu í Brennslunni.

Viðtalið í Brennslunni má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. Guðjón Smári kemur inn á mínútu 1:31:28 í þættinum.