Innlent

Odd­viti tekur við verk­efnum sveitar­stjórans eftir upp­sögn

Atli Ísleifsson skrifar
Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, og Jón Hrói Finnsson við undirritun ráðningarsamnings í Skjólbrekku síðasta sumar. Gerður tekur nú við verkefnum sveitarstjóra þar til að nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn.
Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, og Jón Hrói Finnsson við undirritun ráðningarsamnings í Skjólbrekku síðasta sumar. Gerður tekur nú við verkefnum sveitarstjóra þar til að nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn. Þingeyjarsveit

Gerði Sigtryggsdóttur, oddvita sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, hefur verið falið að taka tímabundið við starfi sveitarstjóra þar til nýr hefur verið ráðinn í starfið. Jón Hrói Finnsson, sem tók við starfi sveitarstjóra síðasta sumar, lagði á dögunum fyrir sveitarstjórn uppsagnarbréf sitt.

Á vef sveitarfélagsins kemur fram að í uppsagnarbréfi Jóns Hróa komi fram að ástæður hans fyrir uppsögninni séu af persónulegum toga.

Í fundargerð sveitarstjórnar vegna funar 19. janúar kemur fram að sveitarstjórn hafi samþykkt samhljóða uppsögn sveitarstjórans og falið oddvita að ganga frá starfslokum hans.

„Sveitarstjórn þakkar Jóni Hróa Finnssyni fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að oddviti taki tímabundið við starfi sveitarstjóra þar til nýr einstaklingur hefur verið ráðin í starfið. Jafnframt fer oddviti með prókúru sveitarfélagsins,“ segir í fundargerðinn.

Áður en Jón Hrói tók við starfi sveitarstjóra hafði hann starfað sem stjórnsýsluráðgjafi frá árinu 2019, meðal annars fyrir Þingeyjarsveit í aðdraganda og framhaldi af sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×