Báðir bræðurnir voru fluttir á skrifstofur rannsakenda í Búkarest í dag og við það tilefni kallaði Tate á blaðamenn.
„Þeir vita að við höfum ekkert gert af okkur,“ sagði Tate í sínum fyrstu opinberu ummælum frá því hann var handtekinn. „Þetta mál er algjörlega innantómt. Þetta er auðvitað óréttlátt, það er ekkert réttlæti í Rúmeníu því miður.“
Tate þvertók fyrir að hafa skaðað konur.
Tristan Tate sagði engin sönnunargögn hafa fundist gegn sér og að eina ástæðan fyrir því að hann væri í fangelsi, væri að yfirvöld í Rúmeníu ætluðu að stela bílunum hans og peningum.
„Þess vegna er ég í fangelsi,“ sagði Tristan Tate, samkvæmt Reuters.
Gæsluvarðhald bræðranna var nýverið framlengt til 27. febrúar.
Sjá einnig: Gæsluvarðhald Andrew Tate framlengt um þrjátíu daga
Tate, sem er fyrrverandi bardagakappi og lagði stund á blandaðar bardagalistir, á sér mikinn fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum. Tate hefur helst verið umdeildur fyrir orðræðu hans í garð kvenna og að ýta undir eitraða karlmennsku. Mikill meirihluti fylgjenda hans á samfélagsmiðlum eru ungir karlmenn og drengir.
Bræðurnir fluttu til Rúmeníu fyrir fimm árum síðan
Lögreglan hefur lagt hald á mikið af eignum þeirra bræðra eða minnst fimmtán bíla og tíu fasteignir.
Sjá einnig: Lúxuskerrur Tate gerðar upptækar
Saksóknarar í Rúmeníu hafa sagt að geti þeir sannað að bræðurnir hafi grætt peninga á ólöglegan hátt, til dæmis með mansali, þá yrðu eigur þeirra notaðar til að greiða fyrir rannsóknina og veita meintum fórnarlömbum þeirra bætur.