CNN greinir frá því að rannsókn sé hafin innan dómsmálaráðuneytis sem snýr að því um hvaða skjöl sé að ræða og hvernig þau hafi endað á heimili Pence. Leitin var gerð í kjölfar þess að leynileg skjöl fundust í tvígang á heimili Joe Biden Bandaríkjaforseta. Mike Pence hefur hingað til hafnað því að hafa nokkur leynileg skjöl undir höndum.
Samkvæmt frétt CNN átti varaforsetinn fyrrverandi frumkvæði að því að leitin var gerð og sendi lögfræðingur Pence skjölin til þjóðskjalasafnsins. Ekki er ljóst hvers efnis skjölin eru eða hversu mikil leynd ríkir yfir þeim. Lögfræðingur Pence segir hann grunlausan um að leynileg skjöl væru á heimili hans.
Bæði Donald Trump og Joe Biden, fyrrverandi og núverandi forsetar Bandaríkjanna, sæta nú rannsókn vegna leynilegra skjala sem fundist hafa á heimilum þeirra.