Björgvin Páll ræddi handboltann, bókina sína og andleg málefni við blaðamann Handbollskanalen.
Björgvin er á því að börn eigi að setja háleit markmið og þau verði varla hærri en að verða forseti í framtíðinni.
Björgvin on new book, mental health & fighting for childrenhttps://t.co/QrNjgaIzF1 pic.twitter.com/qtfJWgD2WA
— Handbollskanalen (@HBkanalen) January 16, 2023
Handbollskanalen fjallar sérstaklega um bókina sem Björgvin Páll gaf út fyrir jólin en hún heitir Barn verður forseti og er eins og Björgvin Páll, heiðarleg og ljúfsár saga um von. „Um metnað, kærleika og mikilvægi þess að gefast aldrei upp þótt allt virðist glatað. Það eru alltaf ný tækifæri í næsta leik,“ eins og segir í kynningunni á henni.
Björgvin segir heimsókn á Bessastaði eftir heimkomu af Ólympíuleikunum 2008 hafi opnað augu hans. Björgvin var þá nýbúinn að fá Ólympíusilfur um hálsinn og var þarna sæmdur fálkaorðunni.
„Þegar ég fékk fálkaorðuna eftir Ólympíuleikana 2008 þá var ég einstaklega ánægður. En ég hugsaði líka að einn daginn yrði það ég sem afhenti fálkaorðuna í stað þess að taka við henni,“ sagði Björgvin Páll.
Blaðamaður spyr hann þó beint út hvort hann hafi í alvöru hugsað um að bjóða sig fram til forseta.
„Já en tíminn mun leiða í ljós hvort að ég muni bjóða mig fram til forseta. Þetta er líka hluti af myndmálinu í bókinni um að börn ættu að setja markið hátt,“ sagði Björgvin.
TV2 í Danmörku fjallar einnig um viðtalið eins og sjá má hér.