Ísland er með tvö stig í riðlinum en getur í raun enn unnið riðilinn ef úrslitin verða hagstæð í leik Ungverjalands og Portúgal.
Fan Zone var aftur á móti að sjálfsögðu á sínum stað í dag og opnaði það klukkan 15 á staðartíma, þremur tímum fyrir leik.
Þar var aðeins fjölskylduvænni stemning í dag en samt sem áður nokkur hundruð manns og góð og mikil stemning.
„Mér líður bara mjög vel og ég held að þetta fari bara vel í kvöld,“ segir Unnur Ósk Steinþórsdóttir kærasta Bjarka Más Elíssonar sem var sjálf í góðu skapi í höllinni í dag.
„Síðasti leikur var mjög skemmtilegur þangað til alveg í restina og þá var þetta svolítið leiðinlegt. En stemningin í síðasta leik var sturluð og það var ekkert eðlilega gaman að taka þátt í þessu.“
Unnur segist stundum verða stressuð þegar Bjarki er að henda sér inn úr horninu.
„Já stundum er ég það, en hann er samt svo oft með þetta að maður getur samt heilt yfir verið nokkuð róleg,“ segir Unnur sem er handviss um að Ísland vinni leikinn á eftir.
Í innslaginu hér að ofan, sem Sigurður Már Davíðsson tók, má sjá viðtal við tvo mikla meistara sem hafa verið alla riðlakeppnina hér í Svíþjóð, fara yfir til Gautaborgar á morgun og munu elta liðið allt mótið. Þeir einfaldlega keyptu sér flugmiða út, aðra leiðina og fara ekki heim fyrr en íslenska liðið hefur lokið sinni þátttöku á mótinu.
Hér að neðan má sjá myndir sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, tók í fjörinu í Fan Zone í Kristanstad í dag.









