
Tilhneigingin á þróun fylgis stjórnmálaflokkanna í könnunum sem Maskína birti 28. desember og Gallup hinn 31. desember er mjög svipuð. Helsta breytingin frá kosningunum 2021 er að Samfylkingin tvöfaldar fylgi sitt í báðum könnunum. Fylgi hennar og Sjálfstæðisflokksins er nánast það sama, í hvorri könnun fyrir sig en öllu meira hjá Gallup en Maskínu. Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn tapa mestu fylgi hjá báðum miðað við síðustu kosningar.
Að gefnum því að atkvæði flokka dreifist með svipuðum hætti milli kjördæma og í kosningunum 2021 má leika sér að skoða þingmannafjölda flokkanna miðað við þessar tvær kannanir og þar með möguleg stjórnarmynstur.

Stjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna væri fallinn samkvæmt báðum könnunum. Flokkarnir fengju sameiginlega 26 þingmenn samkvæmt könnun Maskínu og 27 samkvæmt könnun Gallups, en að lágmarki 32 þingmenn þarf til að mynda meirihluta.
Stjórnin sem reynt var að mynda eftir kosningar 2017 með Framsókn, Pírötum, Samfylkingu og Vinstri grænum næði hins vegar meirihluta samkvæmt báðum könnunum, með 33 til 34 þingmenn.
Flokkarnir þrír sem helst hafa átt samleið í stjórnarandstöðunni, Viðreisn, Píratar og Samfylking næðu ekki lágmarks meirihluta þingmanna. Ef Framsóknarflokkurinn gengi hins vegar til liðs við þessa þrjá flokka, næði hún meirihluta með 33 til 34 þingmenn eftir könnunum.

Það myndi ekki duga Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu að fá Vinstri græn til liðs við sig, sem hefðu 30 þingmenn á bakvið sig samkvæmt bæði könnun Maskínu og Gallup.
Ríkisstjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vantaði einn þingmann til myndunar meirihluta samkvæmt könnun Maskínu en næði rúmum meirihluta með 34 þingmenn samkvæmt könnun Gallups.
Ef Framsóknarflokkurinn fengi síðan tvo fylgismestu flokkana, Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu með í stjórnarsamstarf hefði slík stjórn 34 til 38 þingmenn og þar með góðan meirihluta.