Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem greint er frá í dag. Úrskurðurinn er ekki birtur í heild sinni í ljósi þess að hann inniheldur nákvæmar upplýsingar um mannsins. „[J]afnvel þó persónuauðkenni væru afmáð, hefur Persónuvernd ákveðið að birta ekki úrskurðinn í heild sinni,“ segir um málið en Persónuvernd birtir þess í stað útdrátt úr úrskurðinum.
Maðurinn ákvað að kvarta til Persónuverndar vegna greinanna sem birtust í leitarvél Google. Í þeim var „fjallað um einstakan atburð þar sem kvartanda varð á en ekkert refsivert átti sér þó stað“.
Google hafði upphaflega hafnað beiðni mannsins um að fjarlægja fyrrnefndar leitarniðurstöður á grundvelli þess að upplýsingarnar tengdust atvinnustöðu kvartanda og hlutverki hans á opinberum vettvangi þar sem hann gegni stjórnunarstöðu í núverandi starfi.
„Að mati Google voru þær persónuupplýsingar sem birtust í fréttaumfjölluninni því ennþá taldar þjóna almannahagsmunum,“ segir á síðu Persónuverndar.
Ekki á sama máli
Persónuvernd var þó ekki á sama máli og mat það sem svo að með hliðsjón af atvikum málsins, stöðu mannsins og þeim tíma sem liðinn væri frá atburðinum sem fjallað er um í tilgreindum greinum, að einkalífsverndarhagsmunir kvartanda yrðu taldir vega þyngra en hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum.
Google var því gert að fjarlægja þær vefsíður sem kvörtunin tók til úr niðurstöðum leitar að nafni kvartanda í leitarvél Google með vísun í rétt mannsins til gleymast. Ákvörðun Google hafi ekki samrýmst lögum um persónuvernd.