Sólveig Anna segir að henni þykir miður að Samtök atvinnulífsins hafi ekki gengið að tilboði Eflingar. Hún segir að samtökin hafi ekki svarað tilboði Eflingar sem lagt var fram á dögunum, annað en það SA sem hafi þegar boðið.
Hún segir að ekkert samtal hafi átt sér stað á fundinum í dag, eða í það minnsta sé erfitt að lýsa því sem fram fór á fundinum sem samtali.
Hún segir að næstu skref séu að undirbúa verkfallsboðun. Sólveig Anna segist ekki geta sagt hvað það taki langan tíma að grípa til aðgerða, fylgja þurfi lögbundnum skrefum.
Sólveig Anna segir að einhugur hafi verið innan samninganefndar Eflingar um að slíta viðræðum. Þá segir hún að þrátt fyrir viðræðuslit muni Efling hlýða því, kalli ríkissáttasemjari samninganefndar SA og Eflingar aftur á fund.
Aðspurð um hvort allt sé ekki stál í stál í þessum viðræðum segir hún að það sé reynsla Eflingarfólks að þegar farið sé í aðgerðir til að berjast fyrir kröfum félagsmanna skili að sér í betri niðurstöðum.
Hún segir að verkfall Eflingarfólks geti bitið víða en að það sé verkefni samninganefndar Eflingar að útfæra næstu skref.
Ólöf Adolfsdóttir, ritari Eflingar, segist vera ósammála niðurstöðu samninganefndarinnar um að slíta viðræðum, hún segir þó að samninganefndin hafi verið nokkuð sammála um þessa niðurstöðu.
Hún segist vera hrædd við verkföll á þessari stundu og óttast að erfitt geti verið að vinna upp þá afturvirku launahækkun frá 1. nóvember sem Samtök atvinnulífsins hafa sagt að sé ekki í boði verði ekki samið fyrir morgundaginn.
Hún segist ekki geta talað fyrir alla félagsmenn í Eflingu en að félagsmenn sem hún hafi rætt við séu einnig hrædd um verkföll. Hún hvetur félagsmenn til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir.
Fylgst var með gangi mála í Karphúsinu í vaktinni hér að neðan.