Liverpool og Wolves gerðu 2-2 jafntefli er liðin mættust í ensku bikarkeppninni, FA-bikarnum í kvöld. Liðin þurfa því að mætast á ný til að skera úr um hvort liðið fer áfram í fjórðu umferð.
Úlfarnir komust yfir með marki frá Goncalo Guedes á 26. mínútu eftir skelfileg mistök frá Alisson í marki heimamanna þar sem hann gaf boltann beint í fætur Guedes.
Darwin Nunez jafnaði þó metin fyrir heimamenn á seinustu mínútu fyrri hálfleiks og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Mohamed Salah kom heimamönnum svo í forystu snemma í síðari hálfleik áður en varamaðurinn Hwang Hee-chan jafnaði metin fyrir Úlfana á 67. mínútu.
Úlfarnir héldu svo að þeir hefðu stolið sigrinum þegar Toti Gomes kom boltanum yfir línuna, en eftir langa skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli og liðin þurfa að mætast á ný til að skera úr um hvort þeirra kemst í fjórðu umferð FA-bikarsins.