Í nýrri samantekt CIES Football Observatory, viðurkenndri rannsóknarstofu fyrir íþróttir, er Bellingham talinn vera meira virði en Kylian Mbappé. Dortmund táningurinn er orðinn verðmætasti knattspyrnumaður heims.
Kylian Mbappé er meira segja dottinn niður í þriðja sæti því Phil Foden hjá Manchester City er einnig á undan honum.
Mbappé er orðinn 23 ára gamall, sem er ekki mikið, en hann er fjórum árum eldri en Bellingham og einu ári eldri en Foden.
Jude Bellingham er nú talinn vera 208,2 milljón evru virði sem eru rétt tæpir 32 milljarðar íslenskra króna eða 183,9 milljónir punda.
Foden er líka meira en tvö hundruð milljón evra virði en Mbappé er aftur á móti metinn á 190,7 milljónir evra eða 168,4 milljónir punda sem er örlítið hærra en Vincius Junior hjá Real Madrid og nokkuð meira en Erling Haaland hjá Manchester City sem er metinn á 154,5 milljónir punda.
Spænsku ungstirnin Pedri og Gavi eru síðan í sjötta og sjöunda sæti.
Bellingham hefur verið orðaður við Liverpool í langan tíma en margt bendir til þess að verðmiðinn á honum verði allt of hár. Það er því líklegast að Bellingham lendi hjá liði eins og Real Madrid eða Paris Saint Germain.