Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, í samtali við Fréttablaðið en tilefnið er lokun Reykjanesbrautar vegna ófærðar. Þá hafi engin varaáætlun verið til staðar og um 30.000 manns, þeirra á meðal margir ferðamenn, lent í vanda.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir algjörlega þess virði að ræða hugmyndir um lest til Keflavíkur. Þá umræðu ætti hins vegar að taka án þess að tengja hana við veður og ófærð.
„Þetta er stærra mál en svo að við hendum upp lest bara af því að það varð ófært tvo daga á síðasta ári. En lest yrði eflaust afskaplega góð viðbót við Keflavíkurflugvöll. Það stendur þó allt og fellur með hagkvæmni,“ segir Jóhannes.
Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins hefur kostnaður við fluglest verið metinn á bilinu 100 til 200 milljarðar króna.