Fulltrúar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO segja að Kínverjar verði að leggja aukinn kraft í bólusetningar.
Kínverski fjölmiðillinn China Daily segir frá því að yfirvöld þar í landinu reyni nú að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og hefur Lýðsheilsustofnun landsins hvatt heilbrigðisyfirvöld til að stórauka þá sjúkrameðferð sem sérstaklega viðkvæmir COVID-sjúklingar fá til að draga úr áhrifum sjúkdómsins. Þá hyggjast yfirvöld herða aðgerðir á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum til að draga úr útbreiðslunni.
Í frétt Bloomberg segir að mesta smitbylgjan frá upphafi faraldursins herji nú á Kínverja og að á næstu dögum megi búast við að um milljón manns muni smitast af veirunni á hverjum degi.
Þar er vísað í rannsókn breska rannsóknarfyrirtækisins Airfinity Ltd, en ennfremur segir að þessi þróun kunni að leiða til dauða um fimm þúsund manna á hverjum degi.
Sjá einnig: WHO skortir gögn frá Kína þar sem biðraðir myndast við líkbrennslur
Hætta er á að útbreiðslan muni aukast enn frekar meðal kínversku þjóðarinnar sem telur um 1,4 milljarðar. Samkvæmt spánni kann svo að fara að 3,7 milljónir manna muni smitast á hverjum degi í janúar og 4,2 milljónir í mars.
WHO befur bent á að lágt hlutfall bólusettra, frekar en að búið sé að aflétta samkomutakmörkunum, sé helsta vandamálið sem Kínverjar glími við nú.