Það var aðfaranótt mánudags sem lokað var fyrir umferð um Reykjanesbraut vegna veðurs. Brautin var að mestu lokuð í rúman sólarhring. Vegna þessa komst hvorki starfsfólk flugvallarins, flugfélaganna og svo farþegar til og frá Keflavíkurflugvelli og þurfti því að aflýsa fjölda flugferða.
Síðdegis í gær var tekið að fljúga á ný og hafa flugfélögin síðan þá unnið að því að koma öllum farþegunum á sinn stað. Fimm þúsund farþegar áttu bókað flug með Icelandair þegar aflýsa þurfti öllu flugi á mánudaginn.
„Staðan er bara ágæt miðað við aðstæður. Við erum að fljúga fulla áætlun í dag og reyna að bæta upp fyrir það sem að datt út síðustu daga eins og við getum. Einhverjar seinkanir verða þannig við biðjum okkar farþega að fylgjast mjög vel með tilkynningum frá okkur á vefsíðunni okkar og í appinu. Við erum með þrjátíu og sex brottfarir áætlaðar frá Keflavík í dag þannig að þetta eru yfir sex þúsund farþegar þannig það er ansi mikið í gangi núna,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Hann segir stefnt að því að koma öllum á áfangastað fyrir jólin.
„Það er markmiðið okkar og stefnum að því ef ekkert óvænt kemur upp. Við erum búin að leigja inn tvær breiðþotur sem við erum að nota í dag og á morgun til þess að bregðast við þessu ástandi sem var hérna síðustu tvo daga.“
Svipaða sögu er síðan að segja af flugfélaginu Play sem hefur brugðið á það ráð að sækja nýja farþegaþotu félagsins strax, en til stóð að taka hana í notkun í vor.
Play verður þannig með sjö eigin þotur til reiðu á morgun auk þess sem vélar verða leigðar til þess að allir farþegar félagsins komist á sinn áfangastað fyrir jólin.

Isavia tilkynnti fyrir stundu um að búið er að opna bílastæðin við Keflavíkurflugvöll aftur en fólk er hvatt til að bóka stæði á netinu. Mikið líf er á Keflavíkurflugvelli núna.
„Það er allt hægt og bítandi að komast í eðlilegt horf á vellinum. Það er mikið um flugferðir hjá okkur í dag og það er ljóst að þetta verður annasamur dagur hjá okkur og öllum sem starfa á vellinum,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia