Greint er frá samkomulaginu á síðum fjölmiðlanna í morgun.
Þar segir að um verði að ræða nýjan óháðan fjölmiðil í dreifðu eignarhaldi. Hann verði byggður á ráðandi hugmyndafræði Kjarnans og Stundarinnar og að „áhersla verði lögð á rannsóknarblaðamennsku, greiningar og daglegar fréttir frá sjónarhóli almennings fremur en sérhagsmuna“.
Fram kemur að kjarnastarfsemi hins nýja miðils verði dagleg fréttasíða og prentútgáfa sem muni koma út tvisvar í mánuði. Sé fyrirhugað að fyrsta útgáfa nýja miðilsins verði 13. janúar 2023, en að þangað til muni Kjarninn og Stundin halda áfram að starfa í óbreyttu formi.
Ennfremur segir að eigendahópur sameinaðs útgáfufélags telji á fjórða tug einstaklinga; bæði úr hópi starfsmanna og fólks utan rekstrarins. Enginn sé með meira en tíu prósenta eignarhlut og standi til að tryggja að svo verði áfram.
Ingibjörg Dögg og Þórður Snær verða ritstjórar eins sameinaða fjölmiðils og mun Helgi Seljan gegna stöðu rannsóknarritstjóra.