Blaðamaður tók púlsinn á tónlistarkonunni Hildi Kristínu, sem er bæði með sóló verkefnið HILDUR sem og meðlimur RED RIOT, og hún deildi sínum fimm uppáhalds íslensku og fimm uppáhalds erlendu lögum frá árinu, en íslenskar tónlistarkonur stóðu upp úr hjá henni.
Íslensk lög:
Þurfum að batna - gugusar
Tónlistarkonan gugusar er svo ótrúlega flott og hugmyndarík og mér finnst þetta lag fara í svo geggjað ferðalag. Frábært production sem lætur þig vilja hlusta strax aftur.
En - Una Torfa
Una er náttúrulega stórkostlegur lagahöfundur og þetta lag er svo mikið beint í hjartað. Ég er vissulega smá biased en ég gat ekki sleppt því að velja það því lagið sjálft er bara svo frábært.
Morgunsól - GDRN og Magnús Jóhann
Þetta er svo ótrúlega einlægt og fallegt. Textinn nær manni strax og flutningur Guðrúnar og Magnúsar er bara eitthvað svo fallega brothættur og melankólískur hérna.
Morgun - Kusk ft Óviti
Sjúklega ferskt lag frá sigurvegara Músíktilrauna 2022 ásamt Óvita. Minímalískt en virkar svo vel og festist á heilanum.
Ástarbréf - Lúpína
Önnur sjúklega spennandi tónlistarkona sem var að gefa út sitt fyrsta efni á árinu. Finnst þetta virkilega kreatíft og ófyrirsjáanleg production sem ég elska.
Erlend lög:
Rich Spirit - Kendrick Lamar
Eitt af þessum lögum sem ég man skýrt eftir þegar ég heyrði fyrst af því að það greip mig svo mikið. Fíla hvað það er minimal en hart og í rauninni bara Kendrick eins og ég elska hann mest.
No One Dies From Love - Tove Lo
Þetta er bara svo óumdeilanlega gott og grípandi popplag. Productionið fullkomið og þetta er algjört öskursyngja í bílnum lag.
Clara (the night is dark)- Fred again...
Mjög erfitt að velja bara eitt lag af þessari plötu.
Fred again... var uppáhalds uppgötvunin mín 2022 og hann kann að spila á tilfinningar eins og fiðlu sko.
Kill Dem - Jamie XX
Þetta lag er bara svo kúl frá fyrstu sekúndu. Ógeðslega góð samples og geggjaður taktur.
Stockholmsvy - Hannes, waterbaby
Eitthvað svo yndislega tímalaust, grípandi og einlægt sænskt popp með skemmtilegu autotune tvisti.