Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við Brynju Bjarnadóttur, öryrkja, sem býr í leiguíbúð íbúðafélagsins Ölmu. Um mánaðamótin var henni tilkynnt að leigan verður hækkuð úr 250 í 325 þúsund krónur á mánuði þann 1. febrúar.
Leigufélagið Alma er í eigu eignarhaldsfélagsins Langasjós. Það eru í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna sem keyptu allt hlutafé í Ölmu árið 2021 fyrir ellefu milljarða króna.
Alma, sem áður hét Almenna leigufélagið og var í eigu GAMMA, dótturfélags Kviku banka, var árið 2021 með um 1100 íbúðir í rekstri, flestar á höfuðborgarsvæðinu, og voru heildareignir þess tæpir 47 milljarðar um mitt ár 2020.
Ekki liggur fyrir hve margir leigjendur hjá Ölmu hafa fengið skilaboð um yfirvofandi hækkun á leigu. Þá er sömuleiðis ósvarað hvað réttlæti svo háa hækkun á einu bretti.
Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Ingólfi Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Ölmu, undanfarinn sólarhring vegna málsins. Hann svaraði hvorki símtölum né skilaboðum fréttastofu í gær. Ingólfur Árni er sonur Gunnars Þórs, eins systkinanna fjögurra sem eiga Langasjó.
Fréttamaður fór á skrifstofu Ölmu í Sundagörðum í morgun. Innskráningarkerfi á staðnum virkaði ekki svo gripið var til þess ráðs að berja á dyr. Til svara var ungur karlmaður, líklega um tvítugt, sem sagði Ingólf Árna vera á staðnum og fór til hans með beiðni um viðtal. Eftir nokkuð langa stund mætti starfsmaðurinn og tilkynnti blaðamanni að Ingólfur Árni ætlaði ekki að veita viðtal.
„Hann ætlar ekki að tala,“ sagði starfsmaðurinn. Ekki fengust nein svör við spurningunni hvers vegna hann vildi ekki svara spurningum fréttamanns.
Langisjór, eignarhaldsfélagið í kringum Ölmu, á mörg fyrirtæki sem selja matvörur undir vörumerkjum á borð við Ali og Matfugl. Systkinin fjögur sem eiga Langasjó eru stærstu einkafjárfestarnir í fasteignafélögunum þremur í Kauphöllinni; Eik, Reitum og Reginn.