Ný skýrsla KPMG um það hvernig stytting vinnuvikunnar hefur tekist sýnir að fólk sé almennt ánægt með styttinguna. Sömuleiðis hafi launakostnaður ekki hækkað. Styttingin var tilraunaverkefni og var stofnunum ríkisins heimilt að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 stundir.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir ekki tímabært að ræða vinnuvikuna frekar og nauðsynlegt sé að tryggja að fyrri markmiðum sé náð með góðum árangri áður en frekari skref séu tekin.
Þúsundir starfsfólks hafa nú upplifað styttingu vinnuvikunnar á eigin skinni og segir formaður BHM að vinnulöggjöfin þurfi að endurspegla raunveruleikann.
Kjarasamningar losna hjá félaginu í mars á næsta ári og hefur BHM lýst því yfir meðal annars að þau vilji að vinnuvikan verði stytt enn frekar eða niður í 35 klukkustundir.
„Við höfum sett fram þá megin stefnu í BHM að við viljum gjarnan sjá 35 tíma vinnuviku, 32 stunda vinnuviku í vaktavinnu. En það sem við setjum fram í okkar megin áherslum er að við viljum gjarnan sjá að vinnulöggjöfin endurspegli þann raunveruleika sem þegar er orðinn á íslenskum vinnumarkaði. Það er að segja, vinnulöggjöfin segir í dag að vinnuvikan sé 40 vinnustundir, í reynd er hún komin niður í 36 stundir. […] þá er eðlilegt að vinnulöggjöfin fari að minnsta kosti að endurspegla þennan raunveruleika,“ sagði Friðrik.
Viðtalið við Friðrik sem og við fjármálaráðherra má sjá að ofan. Viðtal Friðriks hefst á 01:33.