Ljóst er að enn eigi eftir að gera upp einhver tjón vegna atviksins, en VÍS mun krefja Orkuveitu Reykjavík um allar bótagreiðslurnar sem hafa átt sér stað.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar sem birtur var í gær. Atvikið átti sér stað við norðurenda fjölbýlishúss í Hvassaleiti 30 þann 2. september síðastliðinn. Snemma var ljóst að mikið tjón yrði vegna þess vatnsflaums sem fór um nærliggjandi svæði.
Nokkrar og samverkandi ástæður
Fram kemur að ástæður þess að lögnin rofnaði séu að öllum líkindum nokkrar og samverkandi.
„Líklegustu orsakir fyrir rofinu eru ófullnægjandi efnisgæði í röri eða að galli hafi komið fram í því. Einnig er mögulegt að breytingar í umhverfi lagnar hafi leitt til þess að hún rofnaði.
Þá kunna jarðhræringar sem hafa átt sér stað á Reykjanesi undanfarið að hafa átt þátt í að lögnin fór í sundur. Það liggur hins vegar fyrir að ekki var fyrir að fara neinum mistökum eða vanrækslu af hálfu starfsfólks Veitna þannig að rof lagnarinnar verður ekki rakið til athafna eða athafnaleysis þess.
Fljótlega varð ljóst að afleiðingar af þessu atviki yrðu töluverðar enda hafði vatn flætt inn í bílskúra og bílaplön í nærliggjandi fasteignum. Í ljósi þess að atvikið var ekki að rekja til mistaka eða vanrækslu starfsfólks fellur tjón vegna þess ekki undir ábyrgðartryggingu Orkuveitu Reykjavíkur ‐vatns‐ og fráveitu hjá VÍS,“ segir í tilkynningunni.
Fjórtán milljónir vegna tjóns á bílum
Enn fremur segir að stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafi tekið þá ákvörðun að allt tjón sem íbúar yrðu fyrir vegna atviksins yrði bætt, VÍS hafi haft umsjón með tjónatilkynningum og milligöngu um uppgjör tjóna til tjónþola.
„VÍS hefur í dag greitt tjónþolum alls 45,6 milljónir króna, þar af eru um 14 milljónir króna vegna bifreiðatjóna. Ekki liggur þó fyrir í dag hver heildarfjárhæð tjónsins verður þar sem enn á eftir að gera upp einhver tjón vegna atviksins. Í samræmi við framangreinda ákvörðun stjórnenda um að taka ábyrgð á öllu því tjóni sem varð mun VÍS krefja Vatns‐ og fráveitu um allar þær bótagreiðslur sem hafa átt sér stað,“ segir í árshlutauppgjöri borgarinnar.