Fótbolti

Agnelli, Nedvěd og öll stjórn Juventus segir af sér

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frá vinstri: Maurizio Arrivabene, Andrea Agnelli, Federico Cherubini og Pavel Nedvěd.
Frá vinstri: Maurizio Arrivabene, Andrea Agnelli, Federico Cherubini og Pavel Nedvěd. Fabrizio Carabelli/Getty Images

Þau stórtíðindi bárust í kvöld að öll stjórn ítalska knattspyrnuliðsins Juventus hafi sagt af sér. Þar á meðal er forsetinn Andrea Agnelli og varaforsetinn Pavel Nedvěd en sá síðarnefndi lék á sínum tíma með liðinu.

Ekki hefur verið staðfest af hverju stjórnin hefur tekið þá ákvörðun að segja af sér en samkvæmt ýmsum miðlum erlendis hefur rannsókn verið hrint af stað til að skoða bókhald félagsins. Talið er að núverandi stjórn sé með óhreint mjöl í pokahorninu og ekki sé allt eftir bókinni í bókhaldi félagsins.

Samkvæmt ítalska blaðamanninum Fabrizio Romano mun Maurizio Arrivabene, framkvæmdastjóri Juventus, halda sæti sínu í stjórn félagsins þangað til ný stjórn hefur verið mynduð. Talið er að það muni taka nokkra mánuði.

Um er að ræða gríðarlega breytingu á stjórnarháttum Juventus en frá 2010 hefur Agnelli verið sá sem valdið hefur. Hann var einn dyggasti stuðningsmaður Ofurdeildar Evrópu og hefur lýst yfir dálæti sínu á hugmyndinni. Agnelli fannst að Juventus ætti að spila við bestu lið álfunnar oftar en það hefur gert undanfarin misseri.

Juventus mun spila í Evrópudeildinni eftir áramót þar sem það endaði í 3. sæti riðils síns í Meistaradeild Evrópu. Heima fyrir hefur liðið verið að rétta úr kútnum og situr nú í 3. sæti, tíu stigum á eftir toppliði Napoli þegar 15 umferðir eru búnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×