Rignt hafði gríðarlega á eyjunni, sem stendur við Napólíflóa, í alla nótt. Aðstæður við björgunaraðgerðir hafa verið afar erfiðar í dag þar sem haldið hefur áfram að rigna talsvert.
Matteo Salvini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, sagði í morgun að átta hefðu látist í aurskriðunni. Það var síðar dregið til baka og nú hafa yfirvöld aðeins staðfest að ein kona hafi fundist látin en tíu sé enn saknað.

Rafmagnslaust er á svæðinu hafa í kring um 30 fjölskyldur setið fastar á heimilum sínum í smábænum Lacco Ameno, við hlið Casamicciola, þar sem nokkrar byggingar hafa hrunið. Um 20 þúsund manns búa á eyjunni en hún er afar vinsæll túristastaður.
„Staðan er afar flókin. Mörg húsanna voru rifin upp með rótum í aurskriðunni,“ er haft eftir lögreglustjóranum Tiziano Lagana í erlendum miðlum.

Hluti þeirra sem var saknað fyrr í dag fundust heilir á húfi við leitaraðgerðir, þar á meðal fjölskylda með nýfætt barn. Einn maður á sjötugsaldri liggur á spítala alvarlega slasaður.
Rignt hefur mikið á Ítalíu síðustu vikuna. Sveitarstjóri Ischia segir að flætt hafi talsvert inn í mörg hús en hvergi sé ástandið eins alvarlegt og í Casamicciola þar sem aurskriðan féll. Þrettán létust í flóðum á Marche-svæðinu á meginlandi Ítalíu í síðasta septembermánuði.


