Hundrað þingmenn sitja í öldungadeildinni og því þarf 51 þingmann til að tryggja sér meirihluta. Aftur á móti er varaforseti landsins ávallt með oddaatkvæði ef til þess kemur að jafnt er í kosningum á þinginu. Varaforseti þessa stundina er Kamala Harris og er Demókrati. Því þarf flokkurinn einungis fimmtíu þingmenn.
Aðfaranótt laugardags tryggðu Demókratar sér sigur í Arisóna en enn átti eftir að klára talningu í Nevada og Georgíu. Í nótt greindu síðan helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna frá því að Demókratar væru búnir að tryggja sér sigur í Nevada.
Catherine Cortez Masto, frambjóðandi Demókrata, er með 48,8 prósent greiddra atkvæða þegar búið er að telja 98 prósent atkvæða. Adam Laxalt, frambjóðandi Repúblikana, er með 48,1 prósent atkvæða og er ekki talinn geta náð Masto.
„Þetta kemur mér ekki á óvart. Ég er mjög ánægður. Ég held að niðurstöðurnar séu endurspeglun á gæðum frambjóðenda okkar,“ hefur fréttastofa CNN eftir Joe Biden Bandaríkjaforseta. Hann er staddur í Kambódíu þessa stundina þar sem hann er gestur á ráðstefnu.
Sjá einnig: Þrjú ríki munu ráða úrslitum