Danmörk, Slóvenía og Króatía tóku öll tvö stig með sér í milliriðilinn, en Ungverjar mættu þangað án stiga.
Eins og áður segir vann Slóvenía afar öruggan átta marka sigur gegn Króatíu, 26-18, þar sem þær slóvensku skoruðu 13 mörk í síðari hálfleik gegn aðeins sex mörkum Króatíu.
Þá þurftu Danir að hafa fyrir hlutunum gegn Ungverjum, þrátt fyrir að hafa leitt nánast allan fyrri hálfleikinn. Ungverska liðið náði forystunni um miðbik síðari hálfleiksins, en þær dönsku náðu að snúa leiknum aftur sér í hag og vinna að lokum tveggja marka sigur, 29-27.
Danmörk og Slóvenía eru því með fjögur stig í milliriðli eitt, líkt og Noregur sem á leik til góða. Króatía er hins vegar enn með tvö stig og Ungverjar án stiga.