Þær Trish Harris og Janey Wilks eru góðar vinkonur og starfa báðar í skólakerfinu í Bretlandi, Trish sér um alla alþjóðlega nemendur í háskóla í Wales og Janey er starfsráðgjafi fyrir ungmenni. Janey er að koma í þriðja sinn til Íslands en þetta er í fyrsta skipti sem Trish gerir sér ferð hingað. Hún ætlaði þó upprunalega að koma árið 2020.
„Ég er að fagna afmælinu mínu um helgina en Janey gaf mér miða á Iceland Airwaves í afmælisgjöf fyrir þremur árum síðan. Svo var auðvitað hætt við hátíðina þannig að heppnin kemur í þriðju tilraun hjá okkur.“

Fór ein í fyrsta sinn
Janey segist upphaflega hafa skellt sér á Airwaves vegna þess að hún sá að John Grant væri að spila á hátíðinni.
„Ég algjörlega elska hann þannig að ég keypti mér miða og skellti mér til Íslands með besta vini mínum. Hann kom reyndar ekki á hátíðina þannig að ég fór ein og ég elskaði það. Um leið og ég kom heim keypti ég því miða fyrir mig og Trish.“
Fjölbreytt tónlistarupplifun
Í ár eru þær meðal annars spenntar fyrir því að sjá Metronomy og Amyl & The Sniffers en hlakka líka mikið til að sjá íslensku tónlistaratriðin.
„Við viljum bara heyra alls konar fjölbreytta tónlist og hlökkum svo til að kynnast og upplifa nýja tónlist, er það ekki bara besta tilfinningin?“
Stöllurnar segjast elska Ísland en þær lentu síðasta mánudag og fara næsta sunnudag.
„Við gerðum allt túrista dótið á tveimur dögum og næstu dagar eru bara tónlistarupplifun til hins ítrasta.
Við höfum verið að fara á tónlistarhátíðir síðustu 35 árin og ferðast víða um heiminn,“
segja þessir lífskúnstnerar að lokum.