Hákon Arnar var í byrjunarliði FCK í kvöld og jafnaði leikinn með marki sínu á 41.mínútu leiksins. Lokatölur urðu 1-1 og tryggði mark Hákons FCK því annað af tveimur stigum liðsins í riðlakeppninni.
„Þetta er mitt fyrsta mark í Meistaradeildinni sem er stærsta keppnin í heiminum. Það var frábært að skora,“ sagði Hákon Arnar í viðtali eftir leikinn í kvöld. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
„Ég er ekki búinn að skora á þessu tímabili, þetta er mitt fyrsta mark. Það eykur ánægjuna að skora í kvöld.“
Hákon Arnar var valinn maður leiksins af UEFA en hann var hógværðin uppmáluð í leikslok.
„Þetta snýst um liðið en að sjálfsögðu er ég ánægður að vera valinn maður leiksins. Mér fannst liðið spila vel og þegar liðið spilar vel þá spila ég vel. Þetta er frábært.“