Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Arion Banka. Þar segir að ákvörðunin sé tekin í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans.
Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,25 prósentustig og verða því 8,6 prósent. Almennir verðtryggðir kjörvextir hækka um 0,75 prósentustig og verða 4,45 prósent.
Kjörvextir bílalána hækka um 0,25 prósentustig og yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga kreditkorta hækka um 0,25 prósentustig. Þá hækka breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga um allt að 0,35 prósentustig og vextir veltureikninga um 0,05 prósentustig.
Vaxtabreytingar útlána taka mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, m.a. útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgir að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafa aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.