Þeir sæta enn gæsluvarðhaldi grunaðir um að hyggja á hryðjuverk. Landsréttur staðfesti í dag fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum.
Sigríður Björk var stödd á Interpol ráðstefnu í Nýju Delí þegar Reykjavík síðdegis ræddi við hana og spurði hvort komið væri að vatnaskilum í öryggisgæslu við æðstu ráðamenn þjóðarinnar vegna málsins.
„Það getur verið uppi einhver sérstök ógn sem steðjar að einum umfram annan og við bregðumst við því en við teljum ekki að við séum komin á þann stað að ráðherrar séu með fylgdarfólk í hverju skrefi. Ísland er ekki talið vera svo hættulegt en eins og við segi, við erum vakandi, við erum að reyna að æfa okkur og búa til áætlanir og hugsa fram í tímann til að geta brugðist hratt við.“
Sigríður segir að hótanir í garð stjórnmálafólks geti grafið undan sjálfu lýðræðinu.
„Stóra málið í þessu er það að það ógnar lýðræðinu ef fólk má ekki tjá skoðanir sínar og óttast að fá einhverjar hótanir og leiðindi í kjölfarið. Við þurfum að passa það að stjórnmálamenn geti sinnt sínu starfi óhikað og óhræddir. Það er eitt af hlutverkum lögreglu að reyna að tryggja það eins og hægt er,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir í Reykjavík síðdegis.