Í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Um land allt var fjallað um glímubæinn Reyðarfjörð. Okkur er sagt að Þóroddur Helgason fræðslustjóri og glímuþjálfari eigi þar stóran hlut að máli en glímukóngurinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, handhafi Grettisbeltisins, og glímudrottningin, Kristín Embla Guðjónsdóttir, handhafi Freyjumensins, eru bæði Reyðfirðingar.
Þegar Þóroddur leiðir okkur til fundar við Ásmund glímukóng og Guðjón Magnússon, formann glímuráðs, rekur hann glímuáhuga Reyðfirðinga aftur til ársins 1954 þegar KR-ingurinn Aðalsteinn Eiríksson kom að sunnan.

„Hann stofnaði hér strax glímuhóp og glíman hefur bara viðhaldist síðan,“ segir Þóroddur.
Þegar Ásmundur er spurður hvernig menn verða glímukóngar er svarið:
„Menn þurfa að leggja alla hina sem taka þátt, það er í rauninni bara svo einfalt.“
Þegar við heimsóttum Reyðarfjörð var glímudrottningin Kristín Embla ekki á staðnum, var við vinnu í Fljótsdal, en hún er dóttir Guðjóns. Í þessum bæ finnst krökkunum ekki púkó að iðka glímu.
„Nei, það finnst engum púkó að vera í glímu á Reyðarfirði. Það er sko íþrótt ársins,“ svarar Guðjón.

-En af hverju eigið þið bæði kóng og drottningu í glímunni? Er það eitthvað í vatninu hjá ykkur?
„Ja, ætli það ekki. Eigum við ekki að segja það. Þetta eru bara sterk gen hérna á Reyðarfirði. Eigum við ekki að segja það,“ svarar Þóroddur.
„Ætli það sé ekki bara afrakstur góðra æfinga,“ svarar Ásmundur.
„Já, þetta eru æfingar að sjálfsögðu. Þetta er bara æfingar,“ bætir Þóroddur við.
Þarna á bakka Búðarár, í hjarta bæjarins, skorum við sjálfan glímukóng Íslands á hólm en hvernig þeirri glímu lauk má sjá í þættinum Um land allt, sem sýndur var á Stöð 2 í kvöld. Þáttinn má einnig nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: