Þingnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar árásina á þinghúsið birti í gær myndband sem sýnir þau Nancy Pelosi og Chuck Schumer, forseta fulltrúadeildarinnar og leiðtoga Demókrata í öldungadeildinni, reyna að binda enda á umsátursástandið, auk annarra leiðtoga þingsins eins og Mitch McConnell.
Stuðningsmenn Trumps réðust á þinghúsið með því markmiði að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020.
Pelosi og Schumer vildu sýna að ríkisstjórn Bandaríkjanna væri enn starfandi og að valdaskiptin hefðu ekki verið stöðvuð. Pelosi spurði hvort þingmenn gætu snúið aftur í þingsalinn og klárað athöfnina formlegu en svarið var nei, því húsið væri ekki öruggt. Á þessum tímapunkti voru þingmenn fastir í þingsalnum og að búa sig undir það að múgurinn bryti sér leið inn í salinn.
„Við verðum að klára athöfnina, annars vinna þau,“ sagði Pelosi.
Hún og Schumer hringdu meðal annars í Jeffrey A. Rosen, sem var þá starfandi dómsmálaráðherra Trumps, og spurðu hann af hverju Trump hefði ekki sagt fólkinu að yfirgefa þinghúsið. Af hverju Rosen hefði ekki beðið Trump um að gera það.
„Þau eru augljóslega að rústa skrifstofum okkar og allt það. Það skiptir ekki máli,“ sagi Pelosi. Hún sagði þau hafa áhyggjur af öryggi fólks. Það væri í forgangi. Schumer sagði þingmenn vera í felum víða um þinghúsið og það þyrfti fólk til að bregðast við ástandinu.
Þau hringdu einnig í ríkisstjórna nærliggjandi ríkja og báðu um aðstoð Þjóðvarðliðs þeirra.
Sammála um að klára þyrfti athöfnina
Pelosi ræddi einnig við Mike Pence, varaforseta Trumps, sem margir þeirra sem réðust á þinghúsið sögðust vilja hengja. Trump-liðar voru reiðir út í hann fyrir að neita kröfu Trumps um að hafna niðurstöðum forsetakosninganna, sem er eitthvað sem Pence hafði aldrei vald til að gera.
Hún sagði Pence að leiðtogar þingsins vildu klára athöfnina og það væri mikilvægt. Pence sagði Mitch McConnell, sem leiðir Repúblikana í öldungadeildinni, vera sammála því að athöfnin þyrfti að klárast.
Pelsoi sagðist þó hafa áhyggjur af því að það tæki tíma að þrífa „kúkinn“ eftir árásina. Bæði táknrænan kúk og bókstaflegan.
Á öðrum tímapunkti fór Pelosi hörðum orðum um Trump og sagði hræðilegt að hann, forseti Bandaríkjanna, bæri ábyrgð á ástandinu. Þá sagði Pelosi að ef Trump væri í þinghúsinu myndu hún rota hann.
Áðurnefnt myndefni má sjá hér að neðan. Dóttir Pelosi tók það upp en hún er kvikmyndagerðakona sem gerir heimildarmyndir og var í þinghúsinu fyrir tilviljun.
Þingnefndin sem hefur árásina til rannsóknar hélt líklegast sinn síðasta opna fund í gær. Hann snerist að miklu leyti um það að lýðræði Bandaríkjanna stafaði enn ógn af Trump, sem er með tangarhald á Repúblikanaflokknum. Meðlimir nefndarinnar samþykktu á fundinum að stefna forsetanum fyrrverandi og fá hann til að mæta fyrir nefndina og svara spurningum þingmanna.
Sjá einnig: Stefna Trump til að mæta fyrir þingnefndina
Trump var ákærður fyrir embættisbrot af þingmönnum fulltrúadeildarinnar vegna árásarinnar á þingið. Repúblikanar í öldungadeildinni komu þó í veg fyrir að hann yrði sakfelldur.