Enski boltinn

Tölfræðingarnir hjá Opta í yfirvinnu eftir frammistöðu Liverpool í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar einu af þremur mörkum sínum á Ibrox í gær.
Mohamed Salah fagnar einu af þremur mörkum sínum á Ibrox í gær. AP/Steve Welsh

Liverpool skoraði sjö mörk á útivelli í Meistaradeildinni í gær og það var að nógu að taka þegar kom að metum og öðrum stórmerkilegum áföngum leikmanna Liverpool liðsins.

Stærsta fréttin var að varamaðurinn Mohamed Salah setti nýtt met í Meistaradeildinni með því að skora þrennu á sex mínútum en þrettán mínútum eftir að hann kom inn á völlinn var Egyptinn búinn að skora þrjú mörk.

Skeiðklukkan sagði að nákvæmlega liðu sex mínútur og tólf sekúndur á milli fyrsta og þriðja marks Salah.

Það voru fleiri afrek unnin í leiknum í gær þar sem Roberto Firmino og Diego Jota komust líka á blað.

Firmino skoraði tvö fyrstu mörk Liverpool í leiknum en þetta var hans sjötta tvenna í Meistaradeildinni. Enginn leikmaður hefur skorað tvö mörk eða fleiri fyrir Liverpool í Meistaradeildinni en Salah er líka með sex slíka leiki.

Firmino jafnaði líka stoðsendingamet Steven Gerrard og James Milner en þeir hafa allir lagt upp tólf mörk fyrir Liverpool í Meistaradeildinni.

Diego Jota lagði upp öll þrjú mörk Mo Salah í leiknum en þetta var í fyrsta sinn í meira en áratug sem leikmaður nær því eða síðan að Franck Ribéry lagði upp þrjú mörk fyrir Mario Gomez í sigri Bayern Münhcen á Basel.

Mohamed Salah þurfti bara níu snertingar í leiknum til að skora þrennu og það er það minnsta hjá þeim 112 þrennum sem hafa verið skoraðar í Meistaradeildinni síðan að Opta fór að taka saman slíka tölfræði í Meistaradeildinni 2003-04.

Hér fyrir neðan má sjá tölfræðistraðreyndi frá Opta um frammistöðu Liverpool í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×