Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að lögregla hafi hafið eftirför eftir að hún gaf ökumanninum merki um að stöðva akstur en hann hafi hundsað þau fyrirmæli. Eftirför hafi þá hafist um Árbæ, Grafarholt og alla leið í Mosfellsbæ. Maðurinn hafi á þeim tíma ekið of hratt, yfir hringtorg og á móti aksturstefnu. Loks hafi tekist að stöðva manninn með notkun naglamottu. Maðurinn verði þá ákærður fyrir fjöldann allan af umferðarlögum og var vistaður í fangageymslu.
Annar ökumaður var stöðvaður af lögreglu eftir nokkra eftirför en hann hafði rástað mikið og var ökumaðurinn handtekinn grunaður um að vera óhæfur til að aka bifreið sökum lyfjamisnotkunar. Sá var færður á lögreglustöð til sýnatöku.
Þriðji var stöðvaður við akstur grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Hann reyndist einnig hafa verið að nota farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar. Þá reyndist hann ekki vera með gild ökuréttindi.
Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna þjófnaðar. Fyrst vegna innbrots í nýbyggingu í gær þar sem verkfærum hafði verið stolið. Þá var tilkynnt um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi en búið var að stela útivistarbúnaði. Einnig var tilkynnt um þjófnað úr verslun og rúðubrot í fjölbýlishúsi.