Víkingar hófu leik kvöldsins betur og ætluðu sér að halda lífi í Íslandsmótinu ef marka mátti upphaf leiksins. Þeim tókst að koma boltanum í netið en það var dæmt af vegna rangstöðu og var staðan markalaus þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Þegar slétt klukkustund var liðin af leiknum þá braut Karl Friðleifur Gunnarsson ísinn fyrir gestina úr Víkinni. Hann átti þá skot sem hafði viðkomu í varnarmanni og sveif yfir Viktor Reyni Oddgeirsson í marki Stjörnunnar.
Gamla brýnið Óskar Örn Hauksson svaraði um hæl fyrir heimamenn og staðan orðin 1-1 þegar 27 mínútur voru til leiksloka. Sjö mínútum síðar fékk Stjarnan aukaspyrnu sem Jóhann Árni Gunnarsson tók. Spyrna hans rataði á kollinn á Daníel Laxdal sem stýrði boltanum í netið og kom Stjörnunni 2-1 yfir. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-1 Stjörnunni í vil.
Breiðablik, sem hefur ekki orðið Íslandsmeistari síðan árið 2010, er með 57 stig þegar þrjár umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. Þar á eftir koma Víkingur og KA með 46 stig. Það er því ljóst að Breiðablik er Íslandsmeistari árið 2022.