Maðurinn var nýlega búinn að aka fram hjá lögreglustöðinni við Flatahraun þegar hann sá lögreglubíl með blá ljós nálgast. Hann stöðvaði bílinn úti í vegkanti og upp að honum gekk lögreglumaður, sem tjáði ökumanninum að hann hafi verið að tala í símann undir stýri.
Þessu neitaði ökumaðurinn eindregið. Hann bauð lögreglu að skoða símann og fletti upp nýlegum símtölum til að sýna fram á sakleysi sitt. Lögreglumenn höfðu ekki áhuga á því að skoða símann en bentu honum á að leita á lögreglustöð – eftir að hafa sektað hann.
Einu sönnunargögn lögreglu var vitnisburður lögreglumannanna sem stöðvuðu ökumanninn. Þeir sögðust hafa séð hann tala í símann en aðspurðir kváðu þeir nánari upplýsingar almennt ekki þurfa að liggja fyrir í tilvikum sem þessum, eins og það er orðað í héraðsdómi. Þeir hafi því ekki þurft að skoða símann sérstaklega, þó ökumaðurinn hafi boðið þeim það.
Héraðsdómari kvað enga eiginlega rannsókn hafa farið fram hjá lögreglu í málinu. Fyrir dómi lagði ökumaðurinn fram gögnin sem lögregla hafði ekki áhuga á að skoða þegar hann var stöðvaður. Ákæruvaldið þurfti að bera hallann af sönnunarskortinum og var ökumaðurinn því sýknaður. Ríkissjóði ber að greiða sakarkostnað mannsins - upp á 300 þúsund krónur.